Tuesday, October 17, 2006

Enn berast nýjar hneykslisfréttir af stóra jólasveinamálinu sem hefur skakið íslenskt þjóðfélag niður í grunninn.
Í ljós hefur komið að umræddur jólasveinn hefur engin tengsl við Ikea, sem eins og alþjóð veit, startar jólunum á hverju ári, í samvinnu við þjóðkirkjuna og önnur stórfyrirtæki, eins og Rúmfatalagerinn og Húsasmiðjuna sem bæði hafa verið mjög varkár í yfirlýsingum sínum.
Njósnanet jólasveinsins, en upplýsingar fundust um það í gagnagrunnum netþjóna jólasveinsins, hefur reynst svo öflugt að íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að taka það sér til fyrirmyndar við stofnun hinna íslensku leyniþjónustu ISLEYN BB. Óstaðfestar fregnir segja að í gagnagrunninum séu meira að segja upplýsingar um aðsetur Ósóma Baun Larsens, hins fræga predikara sem CIA hefur verið að leita að í mörg ár. Þar eiga einnig að vera upplýsingar um núverandi dvalarstað manna eins og Jimmy Hoffa og Elvis Presley.
Það sem hefur þó vakið mestan óhug þjóðarinnar er að hversu miklu leyti þetta öfluga net njósnara hefur beinst að saklausum börnum. Hvert einasta andartak í lífi saklausra barnanna hefur verið undir sérlega ósvífnu eftirliti. Þeim hefur ekki einu sinni verið hlíft þegar þau voru í baði, enda segja starfsmenn barnaverndarnefndar að svona soralegt barnaklám hafi þeir aldrei séð. Sérstaklega hefur slegið að þeim óhug við lýsingar á athöfnum barnanna þar sem talað er um sum börn séu "góð börn" og önnur "slæm börn".
Hé má gera athugasemdir 0 hafa tjáð sig.

Tuesday, October 10, 2006

Skatturinn lokar verksmiðju Jólasveinsins á Tálknafirði.

"Við höfum lengi haft illan bifur á þessum bissnessmanni" Segir Ragnar Ómarsson deildarstjóri skattarannsóknardeildar Tollstjóraembættisins. "Hann hefur í mörg ár fengið endurgreiddan vask af hráefni sem hann hefur fengið en aldrei borgað innskatt á móti. Við yfirheyrslur hélt hann því fram að hann hefði "gefið" vörurnar sem hann framleiddi! Hvernig hefur hann þá getað borgað öllum þessum Pólsku Álfum, sem við fundum við störf í verksmiðjunni, laun. Og klæðaburðurinn. Guð minn góður! Maðurinn hefur ekki rakað sig í mörg ár, hann klæðist eldrauðum jakkafötum með breiðu svörtu leðurbelti með sylgju úr gulli. Hann er svo feitur að í þessum klæðnaði minnir hann helst á slökkvibíl.
Við húsleit vaknaði grunur á að hann hafi gefið hreindýrunum, sem við fundum illa haldin í útihúsunum hjá honum, geislavirk efni. Nefið á einu hreindýranna gaf frá sér sjúklegan rauðan bjarma og þau vógu nánast ekki neitt þegar við vigtuðum þau. Við höfðum að sjálfsögðu samband við dýraverndunarsamtök sem komust að þeirri niðurstöðu að best væri að lóga skepnunum."

Nánari fregnir verða fluttar síðar.
Hé má gera athugasemdir 0 hafa tjáð sig.