Sunday, June 10, 2007

Hann gekk hægt eftir gangstéttinni. Það var myrkur eins og það verður verst í Febrúar þegar öll jólaljósin hafa verið tekin niður en það er ennþá myrkur 20 tíma á dag. Ljósastaurarnir lýstu upp það sem var fyrir neðan þá, eins og litlar eyjur úr ljósi með reglulegur millibili. Slyddan féll úr skýjunum og þakti allt með köldu hvítu teppi. Skórnir hans voru gegnblautir en það var langt síðan hann hætti að finna fyrir sársauka í fótunum. Jakkinn var rándýr sportjakki með flís frá 66°N, hann hélt líkama hans heitum en hugurinn var dofinn, dofnari og kaldari en fæturnir. Áfangastaður hans var kominn í sjónmál. Hann nam staðar og kveikti sér í sígarettu, skjálfandi höndum, áður en hann gekk aftur af stað, hægar en áður. Ég var hættur þessari vitleysu hugsaði hann, hættur í rúmlega fimm ár. Þetta á eftir að drepa mig, af hverju byrjaði ég aftur að reykja? En hann vissi nákvæmlega af hverju. Hann byrjaði aftur að reykja kvöldið sem þetta allt byrjaði, kvöldið sem hann hitti hana. Hugurinn spilaði atburði þessa liðna kvölds eins og hver sekúnda hefði verið tekið upp á hágæða upptökutæki. Hann sá hana fyrir sér, hann heyrði hláturinn í henni, hann fann lyktina af henni. Guð minn góður, hvað hún var falleg. Hann stoppaði aftur. Áfangastaður hans var hinum megin við götuna. Hann sá tvo lögregluþjóna ganga út í lögreglubíl og keyra af stað. Þeir litu ekki til hans, voru bara á venjulegri vakt og vissu ekki hvað hafði gerst. Hugurinn hélt áfram að spila atburði löngu liðins kvölds. Hvernig hann gekk til hennar og fór að tala við hana. Hvernig hún brosti. Ó guð, brosið. Hann fann fyrir ógleði og beygði sig snöggt fram, eins og hann hefði verið laminn í magann. Hún hafði beinar hvítar tennur og djúpa spékoppa á hvorri kinn og augun, þessi himinbláu augu, lýstust upp þegar hún brosti. Hann varð ástfanginn á 3 sekúndum sléttum.
Með erfiðismunum rétti hann úr sér og gekk yfir götuna, upp tröppurnar, gegnum andyrið og inn í afgreiðsluna. Vaktstjórinn var kona. Hún leit til hans og spurði hvort hún gæti aðstoðað. Hann svaraði ekki, heldur horfði á hana. Ekki ólagleg kona um þrítugt, dökkhærð með brún augu. Hún endurtók spurninguna. Hann riðaði aðeins í hlýjunni og fann bleytuna undir jakkanum. Hún horfði nánar á hann og tók núna eftir blóðinu sem hafði litað fötin. Hlýjan gerði hann enn dofnari en áður og núna fyrst fann hann fyrir hvað hann var syfjaður. Hann sá að henni brá þegar hún tók eftir blóðinu en það skipti ekki máli. Ekkert skipti máli lengur. Ljósin dofnuðu og hann féll í gólfið. Eins og í fjarska heyrði hann raddir. Svo hurfu þær líka og allt varð svart.
Hé má gera athugasemdir 1 hafa tjáð sig.