"Þú ert þá á förum." sagði hann þegar hann var búinn að útbúa fletið.
"Já, og líklega verður bið á að ég komi aftur." svaraði ég.
"Ég læt Rúnu vita svo hún geti kvatt þig í fyrramálið." sagði hann.
"Verst að ég hef ekki fleiri herbergi, mér er mjög illa við að þú njótir ekki þess besta sem við getum boðið uppá." bætti hann við.
"Ég kann vel við hlýjuna frá eldinum, þið neitið líka alltaf að taka við greiðslu frá mér fyrir gistinguna svo það er ekki nema sjálfsagt að ég gefi herbergið eftir til borgandi gesta." sagði ég.
"Huh. Ef ekki væri fyrir þig væri ég líklega dáinn, við Rúna ættum ekki þennan stað, hefðum aldrei kynnst og hefðum ekki Sigrúnu, þar sem okkur varð ekki barna auðið." svaraði hann.
"Þið áttuð vel saman. Þar sem ég vissi að ykkur langaði í barn þegar ég fann Sigrúnu munaðarlausa leysti ég tvö vandamál í einu með því að koma með hana til ykkar." sagði ég til baka. Ég hélt því fyrir mig eins og alltaf áður að ef ekki væri fyrir mig væri hún ekkert munaðarlaus. Ég drap foreldra hennar af því að þau fóru illa með hana. Ég sá það þótt hún væri ekki orðin árs gömul að hún væri sérstök. Áran hennar var og er einhver sú fallegasta sem ég hef séð og ég hef séð margar, fallegar og ljótar. Svo vissi ég hvar ég fyndi nýja foreldra fyrir barnið, foreldra sem myndu hugsa eins vel um það og í þeirra valdi stæði.
"Við stöndum í þakkarskuld við þig sem við getum aldrei greitt" sagði hann.
"Þið greiðið hana í hvert skipti sem ég kem og þið takið fagnandi á móti mér." sagði ég og geispaði.
"Ég sé þú ert orðinn þreyttur." sagði Sigurður.
"Ég óska þér góðrar ferðar og vona að við sjáumst sem fyrst aftur." bætti hann við.
"Þakka þér fyrir og góða nótt." sagði ég og lagðist í fletið sem hann hafði búið til.
