Wednesday, December 06, 2006

Dularfullt hvítt duftkennt efni hefur fundist á víðavangi um allt land síðasta mánuð. Efni þetta hefur, að því er virðist, þann helsta eiginleika að halda í sér kulda. Þar sem efnið finnst bara þegar kalt er í veðri, eins og hefur verið upp á síðkastið, hefur þerri tilgátu verið kastað fram að þegar þetta efni birtist, kalli það á kalt veðurfar.
Annar eiginleiki efnisins er að þegar fólk snertir það virðist efnið oxast við andrúmsloft og draga vatn út úr líkamanum sem þekur þann stað sem duftið snerti. Virðist þarna vera um frumstæð varnarviðbrögð mannslíkamans við þessu efni. Sama er uppi á teningnum þegar efnið þekur jörðina, þegar það hefur oxast við andrúmsloftið eru oft pollar þar sem það var í hrúgum.
Efnið hefur einnig mjög áhugaverða eiginleika sem byggingarefni, það þjappast vel og breytist í fast form við að þjappast saman. Færustu vísindamenn eru að leita leiða til að framleiða þetta efni í einhverju magni.

Elstu menn og konur þykjast muna eftir þessu kynlega dufti frá æsku sinni og að það beri heitið snjór. Leit í orðabókum að þessu orði hefur ekki borið árangur. Nokkrar gamlar ævintýrabækur minnast hins vegar á orðið snjór og virðist það einkum hafa verið notað til að drepa fólk. Bækurnar minnast á orðin snjóflóð og vetraríþróttir. Helstu íþróttamenn samtímans kannast ekki við þetta forskeyti við orðið íþróttir. Þeir eru hins vegar flestir svo heiladauðir af stera og fæðubótaefnanotkun að það er erfitt að fá tvö orð út úr þeim í samhengi.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home