Sunday, July 01, 2007

Hópur ferðalanga kom inn í húsið þar sem ég sat einn við stórt borð nálægt eldinum. Þetta var þessi venjulegi hópur ævintýramanna á þessum tímum þó yfirleitt væru þeir stærri. Þau voru fimm í hópnum. Einn sterkbyggður, sem sá um bardagana. Tveir prestar til að lækna sár og veita hinstu líkn ef svo bar undir. Einn léttbyggður til að komast inn á staði þar sem erfitt var að komast inn og létta pyngjur þeirra sem gættu sín ekki. Síðast en ekki síst þessi veikbyggði og hokni sem gekk í svörtum kufli, galdramaðurinn og ég er ekki að tala um sjónhverfinar hér, nauðsynlegasti aðilinn í hópnum og sá sem síst var treystandi.
Fyrirliði hópsins gekk að barnum og talaði við eigandann. Hann var greinilega að leita eftir kvöldmat og gistingu. Það var full seint fyrir kvöldmat en góður tími fyrir gistingu. Þau voru vel vopnuð sverðum og brynjum, ekki dýr vopn en vel smíðuð og greinilega mikið notuð.
Yfirbragðið á hópnum var þesslegt að það væri sama hvað kæmi, þau væru viðbúin og kynnu fyllilega að nota vopnin. Mér leist vel á þau. Það voru tvær konur í hópnum sem var óvenjulegt. Yfirleitt eru það bara karlmenn sem ferðast um á þessum síðustu og verstu tímum. Þessar konur báru samt með sér að vera fullfærar um að bjarga sér. Þau voru öll klædd á svipaðan hátt og virtust þekkja og treysta hvort öðru vel. Samt var eitthvað við hegðun þeirra sem fékk mig til að draga þá ályktun að nýlega hefði fækkað um einn í hópnum, enda voru yfirleitt tveir í hópunum sem sáu um mesta ofbeldið í bardögunum.
Hmm, þarna gæti verið kærkomið tækifæri fyrir mig að gera eitthvað. Aðgerðarleysi undanfarinna vikna var farið að fara í taugarnar á mér. Ég horfði á hópinn og ákvað að þessi hópur myndi fá farsæl endalok. Ekki það að farsæl endalok væru skilyrði þess að ég slæist í hópinn með þeim, síðustu þrír hópar sem ég hafði slegist í hópinn með höfðu allir endað með ósköpum. Ég var reyndar búinn að ákveða að þriðji hópurinn myndi enda vel en þau fóru svo mikið í taugarnar á mér að ég skipti um skoðun. Það var sem sagt kominn tími á góð endalok. Ég sendi eiganda staðarins merki svo lítið bar á. Hann talaði smástund við formann hópsins og benti þeim síðan á borðið sem ég sat við. Það voru bara fjögur borð á staðnum og tvö voru með nokkra gesti við svo það væri ekki skrítið þótt þau settust við borðið hjá mér. Það var annað hvort það eða borðið úti í horni en það var dimmt og kalt þar. Fyrirliði hópsins rétti eigandanum nokkra silfurpeninga og síðan kom allur hópurinn að borðinu hjá mér.
"Er ekki í lagi að við setjumst hérna hjá þér, eigandinn benti okkur á þetta borð?" sagði fyrirliðinn.
"Ekkert mál, nafnið er Logi."sagði ég,
"Gunnar." sagði hann.
Svo kynntu þau sig eitt af öðru. Gunnar var fyrirliðinn, hann var bardagamaðurinn. Prestarnir hétu Guðmundur og Guðrún. Þjófurinn bar nafnið Kristín og galdramaðurinn gekk undir nafninu Kjartan. Kjartan var svo sem jafn gott nafn og hvað annað enda notuðu þeir aldrei sitt rétta nafn, þeir sem vissu rétta nafn þeirra höfðu vald yfir þeim.
Þau voru rétt sest þegar stúlkan úr eldhúsinu kom með kássu á diskum ásamt mjöð fyrir þau. Ég beið meðan þau borðuðu og þegar þau voru búin spurði ég hvert ferðinni væri heitið.
"Við erum á leiðinni að Ósfjarðarklaustri." sagði Gunnar.
Ég sá á viðbrögðum hinna að þau kunnu ekki alveg að meta hreinskilni hans. En þetta var snjallt hjá honum. Þau vantaði bardagamann og ég leit út fyrir að vera bardagamaður. Ég var með sverð og allt sem tilheyrði, svo var ég einn við borðið sem benti til þess að mig vantaði ferðafélaga. Ég sá það á honum að honum leist ekki á að vera einn í átökum ef þau kæmu upp.
"Ég var á leiðinni í þá átt, gamall vinur sem býr á Skelmingsá sendi eftir mér til aðstoðar í erfiðleikum sem hann á í. Ég kom hingað með öðrum hópi en leiðir okkar skildu hér, þau voru á leið austur héðan. Við gætum kannski hjálpað hvor öðrum." sagði ég vitandi að íbúðarhúsin á Skelmingsá höfðu verið brennd fyrir tveimur dögum síðan og Þórólfur og fjölskylda hans höfði öll verið drepin.
"Ekki er það verra, það er öryggi í fjölda." sagði Gunnar.
"Einmitt, mér þætti betra að komast heilu og höldnu á leiðarenda, ég yrði Þórólfi lítil hjálp ef ég kæmist ekki á til hans." sagði ég.
Ég fann straum fara um mig og vissi að galdramaðurinn hafði kastað á mig litlum galdri. Hann var góður, svo góður að ég sá hvorki hendurnar né varirnar á honum hreyfast. Ég slappaði af og leyfði galdrinum að fara í gegn, þetta var bara öryggisráðstöfun til að vita hvort ég hefði sagt sannleikan. Ég leyfði honum að halda það. Eftir að þau höfðu talað saman nokkra stund var ákveðið ég fengi að slást í hópinn.
"Við förum fljótlega eftir sólarupprás." sagði Gunnar.
"Ég verð tilbúinn þá." sagði ég.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home