Tuesday, October 10, 2006

Skatturinn lokar verksmiðju Jólasveinsins á Tálknafirði.

"Við höfum lengi haft illan bifur á þessum bissnessmanni" Segir Ragnar Ómarsson deildarstjóri skattarannsóknardeildar Tollstjóraembættisins. "Hann hefur í mörg ár fengið endurgreiddan vask af hráefni sem hann hefur fengið en aldrei borgað innskatt á móti. Við yfirheyrslur hélt hann því fram að hann hefði "gefið" vörurnar sem hann framleiddi! Hvernig hefur hann þá getað borgað öllum þessum Pólsku Álfum, sem við fundum við störf í verksmiðjunni, laun. Og klæðaburðurinn. Guð minn góður! Maðurinn hefur ekki rakað sig í mörg ár, hann klæðist eldrauðum jakkafötum með breiðu svörtu leðurbelti með sylgju úr gulli. Hann er svo feitur að í þessum klæðnaði minnir hann helst á slökkvibíl.
Við húsleit vaknaði grunur á að hann hafi gefið hreindýrunum, sem við fundum illa haldin í útihúsunum hjá honum, geislavirk efni. Nefið á einu hreindýranna gaf frá sér sjúklegan rauðan bjarma og þau vógu nánast ekki neitt þegar við vigtuðum þau. Við höfðum að sjálfsögðu samband við dýraverndunarsamtök sem komust að þeirri niðurstöðu að best væri að lóga skepnunum."

Nánari fregnir verða fluttar síðar.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home